Nýjast á Local Suðurnes

Aðeins tæp 9% kusu í rafrænum íbúakosningum

Rafrænum íbúakosningum um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík lauk í nótt, aðeins 934 eða tæplega 9% þeirra sem voru á kjörskrá nýttu rétt sinn til að greiða atkvæði í kosningunum. Líklegt verður að teljast að yfirlýsingar bæjarstjórnarmanna í Reykjanesbæ um að kosningin myndi ekki hafa nein áhrif á ákvarðanir varðandi deiliskipulagið hafi haft áhrif á kjörsókn.

Gæti valdið fjárhagslegum skaða að hafa íbúakosningar bindandi

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar hafði gert dræma kjörsókn að umtalsefni í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins, þar sem hann hvatti íbúa til að kjósa, þar sem það gæti mögulega haft áhrif síðar ef ákveðið yrði að kjósa um önnur mál. Í pistli bæjarstjórans kom einnig fram að það gæti valdið sveitarfélögum fjárhagslegum skaða að hafa íbúakaosningar bindandi.

Í lögum er gert ráð fyrir að íbúakosningar séu ráðgefandi fyrir sveitar- og bæjarstjórnir nema annað sé ákveðið. Í umræðu um þessar kosningar hefur verið látið í veðri vaka að sú ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, að fylgja þeirri línu, sé ástæðan fyrri dræmri kjörsókn. Ef svo er er ástæða til að ætla að það sama gildi um allar íbúakosningar í framtíðinni því þær munu væntanlega flestar „aðeins“ verða ráðgefandi eins og lögin gera ráð fyrir. Að vísu er heimildarákvæði í lögum um að bæjarstjórn geti ákveðið að hafa kosningu bindandi út yfirstandandi kjörtímabil en ósennilegt að svo verði gert nema tryggt sé að sveitarfélag verði ekki fyrir fjárhagslegum skaða í kjölfarið. Segir meðal annars í pistli bæjarstjóra.