Nýjast á Local Suðurnes

“Merkilegt skref í þróun íbúalýðræðis,” segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Kjartan Már Kjartansson gerir rafrænar íbúakosningar varðandi deiliskipulagsbreytingar í Helguvík að umtalsefni í stuttum pistli á heimsíðu sveitarfélagsins, þar segir hann meðal annars að mikilvægt sé að allir nýti rétt sinn til að kjósa því það geti haft áhrif síðar. Pistilinn í heild sinni má finna hér fyrir neðan.

Kjartan Már Kjartansson

Kjartan Már Kjartansson

Í nótt, aðfararnótt þriðjudagsins 24. nóvember, var opnað fyrir rafræna íbúakosningu um breytingar á deiliskipulagi í Helguvík og stendur hún í 10 daga. Það er gríðarlega mikilvægt að allir íbúar Reykjanesbæjar, 18 ára og eldri, taki þátt í kosningunni. Aðeins þannig fæst fram skýr mynd af því hver hugur bæjarbúa er til uppbyggingar í Helguvík. Þeir sem eru mótfallnir uppbyggingu kísilvera og annarrar stóriðju í Helguvík halda því fram að mikil andstaða sé á meðal íbúa við fyrirhugaða uppbyggingu á meðan aðrir fullyrða að mikill meirihluti bæjarbúa sé hlynntur uppbyggingunni og þar með deiliskipulagsbreytingunni. Úr þessu er ætlunin að skera með kosningunni.

Kosningin er í samræmi við sveitarstjórnarlög. Í 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir;

„Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og 108. gr., er ráðgefandi nema sveitarstjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils.“

Bæjaryfirvöld ákváðu strax að halda sig við þetta ákvæði óbreytt þ.e. að hafa kosninguna ráðgefandi eins og lögin gera ráð fyrir. Það þýðir ekki að kosningin sé ekki mikilvæg, þvert á móti.

Merkilegt skref í þróun íbúalýðræðis

Þessi rafræna íbúakosning er önnur í röðinni á Íslandi. Áður hafði sveitarfélagið Ölfuss staðið fyrir rafrænni íbúakosningu um sameiningu við nágrannasveitarfélögin sem tókst vel. Íbúar víða um land hafa verið að kalla eftir meira samráði og því að fá að hafa meiri áhrif með beinum hætti á ákvarðanir sem snerta þá. Þessi íbúakosning er gríðarlega mikilvægt skref í þeirri þróun, ekki bara fyrir íbúa Reykjanesbæjar heldur íbúalýðræði almennt.  Það má vel hugsa sér að í náinni framtíð verði kosið um fleiri mál s.s. nýtt aðalskipulag Reykjanesbæjar, stóra helíumblöðrumálið á Ljósanótt, sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum o.s.frv. Því er mikilvægt að sem allra flestir taki þátt núna til þess að læra og fyrirkomulag rafrænnar kosningar og prufukeyra kosningakerfið.