Nýjast á Local Suðurnes

Gripinn glóðvolgur við tilraun til innbrots

Innri - Njarðvík

Góðkunningi lögreglu var á dögunum gripinn glóðvolgur við tilraun til innbrots í Innri-Njarðvík, en viðkomandi var staðinn að verki við að taka í hurðahúna í einni af rólegri götum hverfisins.

Rætt er um málið í hópi íbúa Innri – Njarðvíkur á Facebook þar sem húseigandi fjallar um atvikið:

„Kæru íbúar! Um tvöleytið í nótt var gerð tilraun til innbrots hjá okkur, tekið í hurðarhúna og reynt að komast inn. Hundarnir á heimilinu vöktu okkur og sjáum við aðilann vera að reyna að opna hurð í hjá nágranna. Við náðum í skottið á honum og er um góðkunningja lögreglunnar að ræða. Hringdum á vakthafandi lögreglu sem kom skömmu síðar. Fariði varlega, læsið öllum dyrum og fylgist vel með.“

Töluverðar umræður urðu um málið í kjölfarið og greindu nokkrir íbúar hverfisins frá svipuðum málum sem upp hafa komið undanfarið.

Þá greindi vefmiðillinn Mannlíf frá, en þar á bæ segjast menn hafa heimildir fyrir því að innbrotstilraunin hafi verið gerð á heimili þrautþjálfaðs lögreglumanns sem hafi handsamað þjófinn og komið honum í hendur vakthafandi lögreglu.