Nýjast á Local Suðurnes

Verður óskað eftir fjárhaldsstjórn í dag? – Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu

Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar lagði til við bæjarstjórn Reykjanesbæjar, á fundi sínum þann 14. apríl síðastliðinn, að hún samþykki á fundi sínum í dag að óskað verði eftir því við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn, þar sem viðræður við kröfuhafa hafi ekki skilað árangri.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun því taka málið fyrir á fundi sínum í dag klukkan 17. Fundir bæjarstjórnar eru sendir út í beinni útsendingu á vef bæjarins og því verður hægt að fylgjast með fundinum í dag hér. Þá hefur Hljóðbylgjan fm 101,2 sent fundi bæjarstjórnar út beint og á því verður engin breyting í dag.

Töluverð óvissa ríkir um hver næstu skref verða, óski bæjarstjórn eftir því að skipuð verði fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu, en slíkt hefur einungis tvisvar sinnum áður verið gert hér á landi áður, síðast árið 2010 þegar slík stjórn var skipuð yfir Álftanesi. Þó er ljóst að slík stjórn hefur töluverðar heimildir þegar kemur að fjárhagslegum ákvörðunum sem snerta meðal annars hækkanir á álögum á íbúa, skerðingu á þjónustu, sölu á eignum, einkavæðingu stofnana og sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélög.