Nýjast á Local Suðurnes

Unnið eftir nýrri og uppfærðri viðbragðsáætlun á HSS

Ný og uppfærð viðbragðsáætlun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur verið gefin út og birt á vef stofnunarinnar. Áætlunin er unnin eftir forskrift frá sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Landspítala.

Áætlunin sem tekur til skipulags og stjórnunar aðgerða innan heilbrigðisstofnunarinnar í kjölfar atviks sem kallar á aukin viðbrögð starfsmanna stofnunarinnar er unnin af Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar HSS, Andreu Klöru Hauksdóttur, yfirhjúkrunarfræðingi heilsugæslu HSS og Fjölni Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra lækninga HSS.

Við gerð áætlunarinnar er stuðst við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lög um almannavarnir nr. 82/2008 og lög um sóttvarnir nr. 19/1997, einnig reglugerð nr. 817/2012 er varðar sóttvarnaráðstafanir. Að auki styðst áætlunin við Alþjóðaheilbrigðisreglugerðina (IHR-2005) og Strategic framework for Emergency preparedness, WHO-2017.

Í inngangi áætlunarinnar segir að viðbragðsáætlun HSS sé ætlað að vera til leiðbeiningar um viðbragðsáætlanagerð HSS en ekki er um endanleg fyrirmæli að ræða. Ábyrgð á áætluninni er á höndum stjórnar HSS og hefur áætlunin verið send til umsagnar og samþykkt af sóttvarnalækni, almannavarnanefnd Suðurnesja og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir á vef HSS.

Áætlunin skal endurskoðuð a.m.k. á fimm ára fresti, en yfirfarin árlega til að mynda hvað varðar boðleiðir, gátlista og starfssvæði innan stofnunar. Ef miklar breytingar verða á starfsemi stofnunarinnar skal áætlunin þegar í stað endurskoðuð, segir jafnframt á vef HSS.