Grunnskólanemar kynntu sér fjölbreytt störf
Reykjanesbær tók þátt í starfsgreinakynningu fyrir nemendur í 8. og 10. bekkjum grunnskólanna á Suðurnesjum sem fram fór í íþróttahúsinu við Sunnubraut í gær. Starf bæjarstjóra var þar kynnt í fyrsta sinn, ásamt starfi byggingafulltrúa, tónlistarkennara, starfsgreinum í grunn- og leikskólum, félagsmiðstöðvum og söfnum í bænum.
Alls 108 störf voru kynnt á starfsgreinakynningunni í gær og hefur fjöldinn og fjölbreytnin aldrei verið eins mikil. Markmiðið er að efla starfsfræðslu grunnskólanemenda og stuðla að sambærilegri fræðslu fyrir alla á svæðinu. Kynningin er ekki síður mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks.