Nýjast á Local Suðurnes

Sleppa við að sækja sófann en borga 30.000 króna sekt

Tveir karlmenn sem staðnir voru að því að henda sófasetti og stólum fram af Krýsuvíkurbjargi í október síðastliðnum þurfa hvor um sig að greiða 30 þúsund krónur í sekt vegna athæfisins. Þeir sleppa þó við tilraunir til að endurheimta sófann enda má flestum vera ljóst að um ómögulegt og stórhættulegt verkefni væri að ræða. Þetta kemur fram á Vísi.is.

Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, lögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum, staðfestir í samtali við Vísi að mennirnir hafi gengist við lögreglustjórasátt í formi sektargerðar. Báðir hafi samþykkt sektina sem hljóðaði upp á 30 þúsund krónur.

Hann segir hafa verið erfitt að finna lagabókstaf sem uppátæki þeirra heyrði undir. Fyrst hafi verið horft til þess að heimfæra brotið undir lög um mengunarvarnir en þar hafi ekkert fundist sem sófakastið hafi getað heyrt undir.

Fór svo að brotið var heimfært undir lögreglusamþykkt fyrir Hafnarfjarðarkaupstað, en þar kemur fram að enginn megi fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát og að enginn megi fleygja rusli eða öðru þess háttar á lóð eða land annars manns.

Mennirnir sleppa þó við tilraunir til að endurheimta sófann enda má flestum vera ljóst að um ómögulegt og stórhættulegt verkefni væri að ræða.