Nýjast á Local Suðurnes

Átján kennarar hafa sagt upp störfum í Reykjanesbæ

Alls hafa átján kennarar sagt upp störfum í Reykjanesbæ vegna kjaradeilu kennara og Sambands sveitarfélaga. Um er að ræða kennara úr fjórum af sex grunnskólum sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram á mbl.is, en sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins eru upp­sagn­ir í stærstu sveit­ar­fé­lög­un­um á höfuðborg­ar­svæðinu ein­ung­is í Reykja­nes­bæog Reykjavík, þar sem fjöldi uppsagna berst skólastjórnendum daglega.

Mikil ólga er í stéttinni vegna kjaramála og fylltu kennarar í Reykjanesbæ meðal annars ráðhús bæjarins fyrir um viku síðan á samstöðufundi, þar sem þess var meðal annars krafist að sveitarfélögin bregðist án tafar við því alvarlega ástandi sem skapast hefur í skólakerfinu.

“Laun kennara eru of lág og valda því með öðru að grunnskólakerfið er ekki lengur sjálfbært. Þeir kennarar sem nú starfa í grunnskólum njóta mun verri kjara en samanburðarhópar og raunar töluvert lægri kjara en almennt tíðkast á landinu. Nú eru samningar okkar lausir og hafa verið lengi. Mánuðum saman hafa sveitarfélögin haft tíma og tækifæri til að bregðast við bráðum vanda. Ekkert bólar á viðbrögðum og samninganefnd sveitarfélaga virðist enn ekki hafa umboð til neins nema að endurtaka leikinn frá því í sumar og bjóða áfram óboðleg kjör,” sagði meðal annars í kröfu kennara sem afhent var Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra.