Nýjast á Local Suðurnes

Þrettándagleði veldur deilum: “Íþróttaatburðir eiga að hafa forgang í íþróttahúsinu”

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur í Dominos-deild karla í körfuknattleik gerir notkun á íþróttahúsi bæjarins undir skemmtanahald að umtalsefni í pistli sem hann ritar á Grindavik.net. Jóhann er ósáttur við að húsið verði notað undir þrettándagleði í sveitarfélaginu rétt fyrir mikilvægan leik í Dominos-deildinni, en Grindvíkingar taka á móti FSu á fimmtudag.

Bæjarráð Grindavíkur hefur samkvæmt vefsíðu Grindavik.net skipulagt þrettándagleði í húsinu daginn fyrir leikinn á tíma sem meistaraflokkur Grindavíkur hefur undir æfingar. Jóhann er ósáttur við þessa ráðstöfun enda virðast tímar í íþróttahúsinu oft skarast auk þess sem Jóhann telur að nóg sé til af húsnæði í bænum undir skemmtanahald.

“Við þurfum oft að æfa seint og í hálfum sal. Ég er ekki að fara að þrasa um að húsið sé of lítið og að það þurfi nýtt hús og öll sú umræða, er búinn að fá nóg af henni í bili. Máið er að núna á fimmtudaginn er okkar fyrsti leikur eftir áramót. Samkvæmt okkar stundartöflu æfum við kl 1930 á þriðjudag en það er kvk leikur í húsinu kl 1915 og æfum við eftir hann ef að samkomulag næst við aðra flokka um tímann eftir leikinn. Svo er æfing kl 1800 á miðvikudag. En nú er búið að setja á þrettándagleði í húsið sem að hefst kl 1800. Þetta þýðir að við getum ekki hafið æfingu fyrr en eftir þessa gleði sem að verður aldrei fyrr en 2030.”

“…er það bara sjálfsagður hlutur að við sem að erum að reyna að halda úti metnaðarfullu starfi þurfum að víkja fyrir þrettándagleði sem að er hægt að halda utandyra eða í öðrum húsum/sölum hér í bæ. Hver tekur þessar ákvarðanir og hvernig er þetta unnið? Er það bara sjálfsagt mál hjá þeim sem þetta ákveða að við lúffum bara fyrir þessu? Það er s.s flott mál að hægt sé að nota íþróttahúsið í annað en bara þessar inni íþróttir en eiga íþróttirnar ekki að vera í forgang? Þetta er íþróttahús númer 1,2 og 3 og ,,menningarhús” númer 4,5 og 6.”

Pistil Jóhanns í heild sinni er að finna hér.

Guðmundur Bragason, fyrrverandi leikmaður og Íslandsmeistari með Grindavík, tekur undir með Jóhanni og segir meðal annars á Facebook-síðu sinni:

„Ótrúlegt að stjórnendur hjá Grindavíkurbær ákveði að þrettándagleðin sé í íþróttahúsinu daginn fyrir leik hjá meistaraflokk, án þess að athuga hvað er í gangi í húsinu.“

“Íþróttaatburðir og mikilvægar æfingar dag fyrir leik eiga að hafa forgang í íþróttahúsinu. Nema það sé kannski orðið aukahlutverk þessa mannvirkis?!!”