Ásmundur hvetur fólk til að hætta viðskiptum við stærsta símafyrirtæki landsins

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvatti fólk til að hætta viðskiptum við stærsta símafyrirtæki landsins, Símann, í umræðum á Alþingi í gær. Ástæðuna sagði hann vera framkvæmd á útboði á hlutabréfum í fyrirtækinu nýlega.
„Við þurfum þjóðarsókn gegn spillingu í bankakerfinu og í atvinnulífinu. Það er alger hörmung að horfa upp á þetta. Fólk er gáttað yfir þessu og ég hvet til þess að hið háa Alþingi hætti nú viðskiptum við svona fyrirtæki eins og Símann. Það ætla ég að gera og ég hvet þjóðina til að segja upp viðskiptum við þetta fyrirtæki.“ Sagði Ásmundur í umræðum um störf þingsins.
Og hann bætti við:„Við eigum að sýna samstöðu, standa saman. Við viljum ekki svona viðskipti hér á Íslandi. Við fengum nóg af því í kreppunni og viljum ekki sjá þetta. Það ríkir ófriður í samfélaginu út af þessu og það er okkar að taka á svona málum. Setja reglur hér í þessum sal um það að svona viðskipti geti ekki átt sér stað í samfélaginu. Sem misbýður fólki dag eftir dag.“
Ásmundur sagði viðbrögð við gagnrýni hans á það hvernig staðið hafi verið að útboðinu á Arion banka fyrir stuttu hafi verið mikil. Í því tilfelli hafi verið viðurkennt að mistök hafi átt sér stað, engin mistök hafi hinsvegar verið viðurkennd varðandi útboð Símans. Þar virtist „skítastuðullinn“ vera kominn upp í rjáfur aftur eins og verið hafi fyrir kreppu, sagði Ásmundur meðal annars.