Leikmenn í sóttkví og leikjum frestað

Leik Þórs Akureyri og Keflavíkur, sem fram átti að fara á föstudagskvöld í Dominos-deild karla í körfuknattleik, hefur verið frestað.
Mótanefnd KKÍ hefur frestað leiknum þar sem að þrír leikmanna Keflavíkur verða í sóttkví fram yfir leikdag. Ekki er búið að ákveða nýjan leiktíma.
Samkvæmt sérstökum reglum KKÍ vegna kórónuveirufaraldursins er leik aðeins frestað ef að þrír af þeim sjö leikmönnum sem mest hafa spilað fyrir lið á leiktíðinni eru í sóttkví eða einangrun. Úr því að tímabilið er ekki hafið telst nóg að hvaða þrír leikmenn sem er, í leikmannahópnum, geti ekki spilað vegna faraldursins.
Í gær var leik kvennaliðs Keflavíkur við Snæfell sem leika átti á laugardag frestað vegna sóttkvíar Keflvíkinga.