Nýjast á Local Suðurnes

Mánaðarlaun kjörinna fulltrúa í Garði hækka um 26% – Taka mið af þróun launavísitölu

Mánaðarlaun kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Garðs hækka um 26% og er hækkunin afturvirk og gildir frá 1. janúar 2017. Þetta var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs þann 24. maí síðastliðinn.

Þróun launakjara kjörinna fulltrúa í Garði hefur fylgt þróun þingfararkaups, sem ákvarðað er af Kjararáði og hækkaði um rúm 44% þann 1. nóvember 2016. Þessi mál hafa verið til skoðunar undanfarin missri í Garði og lagði bæjarráð til að í stað þess að laun opinberra fulltrúa fylgi þróun þingfarakaups muni breytingar á launakjörum kjörinna fulltrúa taka mið af þróun launavísitölu.

Föst mánaðarlaun kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn munu því framvegis uppreiknast eftir þróun launavísitölu og fer útreikningur fram þann 1. janúar ár hvert, segir í afgreiðslu bæjarráðs.