Nýjast á Local Suðurnes

Ítrekað verið óskað eftir því að Vegagerðin bæti Grindavíkurveg

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ítrekað óskað eftir því að Vegagerðin bæti Grindavíkurveg. Þetta segir Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs. Banaslys varð á Grindavíkurvegi í gærmorgunn þar sem ung stúlka lést.

Í samtali við Fréttablaðið segir Kristín María að þrýst verði á að brugðist verði við ástandi vegarins.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir veginn ekki verri þegar kemur að breidd eða hönnun en aðra vegi sem bera tvöfalt meiri umferð.

„Það eru umferðarmeiri vegir, til dæmis á milli Hveragerðis og Selfoss, sem eru svipaðir,“ segir Pétur.

„Það sem við höfum horft til, og kallar þá á gríðarlega mikið fjármagn og nýjar hugsanir, er að aðskilja akstursstefnur. Það er besta leiðin til þess að koma í veg fyrir slys,“ segir hann enn fremur.

Á síðasta ári fóru að meðaltali 3.158 bílar um Grindavíkurveg á hverjum degi. Til samanburðar fóru 7.416 bílar að meðaltali á milli Hveragerðis og Selfoss.