Nýjast á Local Suðurnes

Uppbygging á Ásbrú – Mikil útgjöld falla á Reykjanesbæ

Allt stefnir í að mikill kostnaður vegna uppbyggingar á Ásbrú muni lenda á Reykjanesbæ, en ljóst er að með mikilli fjölgun íbúa á Ásbrúarsvæðinu þarf meðal annars að tryggja að börn fái skólapláss auk þess sem stækka þarf leikskóla. Ekkert af um 10 milljarða króna hagnaði af sölu fasteigna á svæðinu, sem runnið hefur í skaut ríkisins á undanförnum 10 árum, mun verða nýtt til uppbyggingar á svæðinu.

Meðferð söluandvirðis allra eigna ríkisins um land allt rennur til ríkissjóðs og þannig er því einnig farið með eignir á gamla varnarsvæðinu, Ásbrú. Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra, sagði í umræðum um málið á Alþingi á dögunum að ekki yrði gerð undanþága frá þessu varðandi eignir ríkisins á Ásbrú.

“Ég mun ekki beita mér fyrir því að gera undanþágu frá þessari reglu í þessu tilviki.” Sagði Benedikt.

Kjartan Már: “Mikil og skyndileg útgjöld falla á sveitarfélagið”

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í pistli á Facebook-síðu sinni á dögunum að Reykjanesbær þyrfti að bregðast við fjölgun á Ásbrú strax í haust.

“Reykjanesbær þarf að geta boðið nægan fjölda leikskólaplássa og tekið við nýjum grunnskólanemendum strax í haust.” Sagði Kjartan í Pistli á Facebook-síðu sinni “Því má gera ráð fyrir að mikill og skyndileg útgjöld falli á sveitarfélagið þegar rokið verður af stað að bregðast við stöðunni en ríkið hefur ekki viljað ljá máls á því að koma að þessari uppbyggingu með því t.d. að skilja eitthvað eftir af þeim milljörðum sem fengust fyrir sölu eignanna.”

Í svari við fyrirspurn Suðurnes.net um mögulegan kostnað vegna þessarar uppbyggingar sagði Svanhildur Eiríksdóttur, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Reykjanesbæ, kostnaðinn ekki liggja fyrir að svo stöddu.

Reykjanesbær hefur, samkvæmt fundargerðum bæjarráðs, þegar hafist handa við vinnu vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar íbúa á Ásbrú og hefur ráðið falið Umhverfissviði að leita tilboða vegna breytinga á húsnæði undir leikskóla á Ásbrú.

Ásmundur: “Ég vona að uppbygging á Ásbrú fái stuðning. Það er þó ekki í hendi”

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist í svari við fyrirspurn Suðurnes.net hafa beitt sér fyrir því að hluti af söluandvirði eigna yrði nýttur í þá uppbyggingu sem sveitarfélagið þarf að leggja í, en sagði málið í höndum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar.

“Ég hef eins og aðrir þingmenn af Suðurnesjum beitt mér fyrir því að tekjur af söluandvirði eigna renni í uppbyggingu á þessu svæði.” Sagði Ásmundur. “Ég vona að uppbygging á Ásbrú fái stuðning, vegna þeirra tekna sem ríkissjóður hefur fengið vegna sölu eigna. Það er þó ekki í hendi, en fjármálaráðherra og ríkisstjórn taka ákvörðun um afgreiðslu málsins.” Sagði Ásmundur.