Nýjast á Local Suðurnes

Vilja að skipaður verði starfshópur um stefnumótun náms á framhaldsskólastigi

Níu þingmenn úr Suðurkjördæmi vilja að menntamálaráðherra skipi starfshóp um stefnumótun náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Í greinargerð þingsályktunartillögu þingmannanna kemur fram að íbúum hafi fjölgað hlutfallslega meira á Suðurnesjum á undanförnum árum en í öðrum landshlutum og langt umfram meðalfólksfjölgun í landinu. Þeir vilja að menntamálaráðherra skipi starfshóp sem verði falið að kanna hvernig hægt væri að bæta við námsplássum á svæðinu með hliðsjón af fólksfjölguninni og að fjórðungur íbúa er af erlendum uppruna. Fjölbreyttar námsleiðir þurfi að vera í boði í ljósi þess hve margir starfi í vaktavinnu á Suðurnesjum.

Þá segir einnig í greinargerðinni að vandséð sé hvernig Fjölbrautarskóli Suðurnesja geti stækkað frekar á núverandi stað. Rétt sé að líta til framtíðarskipulags sveitarfélag á Suðurnesjum í mati á nýrri staðsetningu miðsvæðis, bæði með tilliti til almenningssamgangna og stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Þá þurfi að tryggja að fjárheimildir skólans séu í samræmi við íbúafjölda.