Nýjast á Local Suðurnes

Telja sterkar vísbendingar um að starfsleyfi USi hafi verið gefið út á röngum forsendum

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Andstæðingar stóriðju í Helguvík (ASH) munu áfram kanna réttarstöðu íbúa á Suðurnesjum gagnvart verksmiðju United Silicon í Helguvík, en félagið telur sterkar vísbendingar um að starfsleyfi verksmiðjunnar hafi verið gefið út á röngum forsendum.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að stjórn ASH hafi farið yfir margvísleg gögn sem þeim hafa borist frá yfirvöldum, meðal annars Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Reykjanesbæ auk fleirri aðila. Þá hafa fulltrúar ASH fundað með lögmönnum tengt yfirferð gagnanna og næsta skref er að réttarstaða íbúa gagnvart verksmiðjunni verði könnuð til hlítar.

Að mati samtakanna eru sterkar vísbendingar um að starfsleyfi verksmiðjunnar hafi verið gefið út á röngum og mögulega fölskum forsendum. Þannig kemur til skoðunar að höfða mál til ógildingar á starfsleyfi United Silicon og verður boðað til fundar við fyrstu hentugleika með ASH, íbúum og öðrum þeim sem hafa áhuga og lögvarða hagsmuni af málinu, segir í tilkynningunni.