Fyrsti útisigur Jürgen Klopp í Evrópukeppni var gegn Keflavík
Nýráðinn framkvæmdarstjóri enska knattspyrnuliðsins Liverpool, lék með og þjálfaði lið Mainz 05 í 17 ár áður en hann tók við þjálfun Borussia Dortmund árið 2008. Klopp lék nánast allar stöður á vellinum nema stöðu markvarðar og þótti hafa yfirburðar leikskilning, en hann lék alls 325 leiki fyrir liðið sem sóknar-, miðju- og varnarmaður.
Árið 2005 komst Mainz 05 í fyrsta sinn í Evrópukeppni undir stjórn Klopp og eftir að hafa komist upp úr forkeppninni lá leiðin til Íslands þar sem liðið lék gegn Keflvíkingum á Laugardalsvelli í UEFA bikarnum, í leik þar sem Klopp stýrði Mainz 05 til 2-0 sigurs og þjálfarinn sigursæli vann þar með sinn fyrsta útisigur í Evrópukeppni.
Síðan 2008 hefur Klopp meðal annars tvisvar sinnum orðið þýskur meistari með Dortmund, komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og unnið fimm silfurverðlaun í deildar- og bikarkeppnum í Þýskalandi.