Nýjast á Local Suðurnes

Krabbaverkefni fá styrki úr Uppbyggingarsjóði

Veitingastaðurinn Vitinn hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 krónur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum hlýtur styrk að upphæð 2,5 milljónir króna frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Verkefnin tvö eiga það sameiginlegt að lögð er áhersla á að rannsaka krabba og aðrar nytjategundir.

Veitingastaðurinn Vitinn hefur sett upp fjölmörg ker, bæði utan og innandyra í þeim tilgangi að geta sýnt krabba og skeldýr í eins nátturulegu umhverfi og kostur er. En krabbi og skeldýr eru vinsælir réttir á matseðli veitingastaðarins. Markmiðið verkefninu sem Vitinn ræðst nú í er meðal annars að útbúa faglegan, skýran og vandaðan texta á fleiri tungumálum um skeldýrin í okkar umhverfi og hvernig við nýtum þau til matar.

Markmiðið með verkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands er tvíþætt, annars vegar að rannsaka lifríki hafsbotns og sjávar á grunnsævi Suðurnesja með áherslu á krabbadýr og hins vegar að kortleggja búsvæði krabbategunda og annarra mögulegra nytjategund á svæðinu.