Njarðvíkursigur eftir framlengingu – Keflavík óstöðvandi

Spennan var í hámarki í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Njarðvíkingar fengu Tindastól í heimsókn í annað sinn á fáum dögum. Leikurinn fór í framlengingu sem endaði með sigri Njarðvíkinga 82-73. Það var sömuleiðis boðið uppá hátt spennustig í Stykkishólmi þar sem Keflvíkingar mættu heimamönnum í Snæfelli, en Keflvíkingar höfðu sigur að lokum, 96-87 og sitja því enn einir á toppnum í Dominos-deildinni með fullt hús stiga eftir fimm umferðir.
Fyrirfram var búist við hörkuleik í Ljónagryfjunni og sú varð raunin, staðan eftir fyrsta leikhluta var 17-16 heimamönnum í vil og allt í járnum. Njarðvíkingar voru þó ögn skárri í öðrum leikhluta og höfðu 9 stiga forskot í leikhléi 33-24.
Gestirnir náðu að vinna upp forskot heimamanna í 3. leikhluta og voru yfir að honum loknum, 47-50. Fjórði leikhluti var jafn og spennandi og þegar um hálf mínúta var eftir voru Njarðvíkingar 2 stigum yfir, Helgi Rafn Viggósson tók sig þá til og setti niður tvö stig fyrir gestina og jafnaði leikinn, 64:64 þannig að framlengja þurfti leikinn.
Í framlengingunni voru Njarðvíkingar sterkara liðið og höfðu sigur 82-73. Liðið er þar með í 5. sæti deildarinnar með sex stig.
Stigaskorun Njarðvíkinga var jöfn en Maciej Stanislav Baginski skoraði 19 stig, Marquise Simmons 18, Logi Gunnarsson 14 og Hjörtur Hrafn Einarsson 13.
Keflvíkingar sem hafa verið á mikilli siglingu í deild og bikar að undanförnu mættu liði Snæfells. Keflavík voru mun sterkari í fyrri hálfleik, en munurinn varð þó aldrei meiri en tíu stig. Staðan að honum loknum var 56:48.
Leikurinn var í járnum allan seinni hálfleikinn, og Keflavík var aðeins þremur stigum yfir þegar fjórði leikhluti hófst, 73:70. Góður kafli kom svo Keflvíkingum í sjö stiga forskot sem Snæfellingar náðu ekki að vinna á og höfðu að lokum níu stiga sigur 96-87.
Earl Brown Jr. skorði 29 stig fyrir Keflvíkinga, Guðmundur Jónsson 21 og Magnús Þór Gunnarsson 12.