Jafntefli hjá Keflavík gegn Fylki í hörkuleik

Þó staða Keflvíkinga í Pepsí-deildinni sé miður skemmtileg eins og stendur, bauð liðið upp á hörkuskemmtun þegar það sótti Fylki heim í Árbæinn í kvöld. Sex mörk voru skoruð, þar af fimm á fyrstu tuttugu mínútunum, auk þess sem Sindri Kristinn í marki Keflavíkur varði vítaspyrnu í síðari hálfleik.
Keflvíkingar náðu forystu í leiknum strax á 6. mínútu með marki frá Hólmari Erni, en það tók Fylkismenn ekki nema sex mínútur að jafna áður en Martin Hummervoll kom Keflvíkingum aftur yfir – 14 mínútur liðnar og staðan 1-2 fyrir Keflavík. Fimm mínútum síðar voru Fylkismenn búnir að jafna aftur, 19 mínútur liðnar og staðan orðin 2-2. Ballið var ekki alveg búið því á 21. mínútu komust Fylkismenn yfir í fyrsta sinn í leiknum, 3-2.
Síðari hálfleikur var ekki síðri, Fylkismenn fengu vítaspyrnu á 53. mínútu sem Sindri Kristinn í marki Keflvíkinga varði meistaralega – Mjög vel útfærð spyrna neðst í markhornið, vel gert hjá hinum unga markverði Keflavíkur.
Fylkismenn tóku leikinn í sínar hendur á þessum tímapunkti og virtust líklegri til að bæta við heldur en Keflavík að jafna þegar Hummervoll var felldur innan teigs, vítaspyrna dæmd sem Magnús Þór Mattíasson nýtti og jafnaði þar með leikinn 3-3, sem urðu lokatölurnar í hörkuskemmtilegum leik.
“Að öllu jöfnu mundi maður halda það að þrjú mörk ættu að duga til að landa þremur stigum en þetta var alveg furðulegur fótboltaleikur á margan hátt,“ sagði annar þjálfara Keflavíkur, Haukur Ingi Guðnason, við mbl.is.
Keflavík er enn á botninum, sjö stigum frá öruggu sæti.