Nýjast á Local Suðurnes

Átak lögreglu: “Íbúar sjálfir sem virða ekki hraðatakmarkanir”

Á tímabilinu 10.8.2015-17.8.2015 var gerð, að beiðni íbúa við Norðurvelli, könnun á umferðarhraða á Norðurvöllum. Umferðargreinir var settur upp í viku og kom í ljós að meðalhraði þessa viku reyndist vera 42 km/klst, en hámarkshraði á Norðurvöllum er 30 km/klst.

Settum við upp verkefni þar sem við fórum á mismunandi tímum á Norðurvelli og mældum hraða ökutækja eftir að upplýsingar úr greininum lágu fyrir, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum

Samtals vorum við þarna í 11 ½ klst á þessu tímabili og er niðurstaðan sú að 9 aðilar voru kærðir fyrir of hraðan akstur og í ljós kom að 6 þeirra eru íbúar í hverfinu, ekki gott.

Sá sem hraðast ók reyndist vera á 59 km/klst og reyndist það einnig vera íbúi í hverfinu. Lögregla fær oft tilkynningar um of hraðan akstur í íbúðagötum í umdæminu og oft eru það því miður íbúar sjálfir sem eru að aka þessar götur og virða ekki hraðatakmarkanir.

Nú skulum við öll leggjast á eitt og reyna að virða reglur um hámarkshraða. Nú fara skólarnir að byrja og út í umferðina flykkjast nú börn sem eru að stíga sín fyrstu spor í umferðinni. Förum varlega og höldum hraðanum niðri, segir í tilkynningu lögreglunnar.