Jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar
Gónhóll 11 hlaut nafnbótina jólahús Reykjanesbæjar árið 2024 og Bílakjarninn og Nýsprautun, Njarðarbraut 13 hlutu viðurkenningna í flokki fyrirtækja.
Í umsögn segir að við Gónhól 11 hafi gefið að líta einstaklega fallega og fjölbreytta jólaveröld sem gleður jafnt börn sem fullorðna. Eigendur hússins eru Jón Halldór Jónsson og Hólmfríður Margrét Grétarsdóttir.
Þá segir að margar verslanir og fyrirtæki hafi lagt sig fram við að glæða bæinn ljósum og lífi með fallegum utanhússkreytingum eða töfrandi jólagluggum. Það fór svo að úr innsendum tillögum hreppti hnossið Bílakjarninn og Nýsprautun, Njarðarbraut 13, þar sem blöstu við stílhreinar og smekklegar jólaskreytingar sem nutu sín m.a. vel frá Reykjanesbraut.
Það var Sverrir Bergmann bæjarfulltrúi og fulltrúi menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar ásamt Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúra sem færðu eigendum jólahússins og jólafyrirtækisins viðurkenningu frá Reykjanesbæ og Húsasmiðjunni.
Myndir: Reykjanesbær.