Nýjast á Local Suðurnes

Nýr samningur vegna flóttafólks – Gert verði ráð fyrir auknum innviðakostnaði

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Samningur félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Fjölmenningarseturs og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks rennur út 31. desember 2023. Við gerð nýs samnings telur velferðarráð Reykjanesbæjar að mikilvægt sé að gert verði ráð fyrir fjármagni vegna innviðakostnaðar.

Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins, en þar segir meðal annars:

Velferðarráð leggur áherslu á að við gerð nýs samnings um samræmda móttöku verði stefnt að því að umfang samningsins verði viðráðanlegt fyrir innviði Reykjanesbæjar og vísar þar til bókunar á fundi ráðsins 18. janúar 2023. Auk þess telur velferðarráð mikilvægt að gert verði ráð fyrir fjármagni vegna innviðakostnaðar, svo sem menntunar og frístundastarfs flóttabarna, almenningssamgangna, heilbrigðisþjónustu og löggæslu svo dæmi séu tekin.