Nýjast á Local Suðurnes

Fyrst rukkað fyrir akstur um Reykjanesbraut

Helst hefur verið rætt um að setja veggjöld á þrjá samgönguása í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en fyrsti ásinn samkvæmt hugmyndum samgöngráðherra, er Reykjanesbrautin sem á að tvöfalda alla leið frá höfuðborgarsvæðinu að Keflavíkurflugvelli.

Veggjöld verða sett á vegi eftir að framkvæmdatíma lýkur og í þeirri röð sem framkvæmt verður. Hugmyndir samgönguráðherra ganga út á að framkvæmdir muni hefjast á Reykjanesbraut og að sá kafli verði því sá fyrsti sem rukkað verður fyrir í formi veggjalda.

Gangi hugmyndir ráðherra eftir verða veggjöldin ekki innheimt fyrr en að framkvæmdum loknum. Samkvæmt tímalínunni sem stjórnvöld vinna eftir er gert ráð fyrir að útboð verkefna hefjist á þessu ári 2019, framkvæmdir hefjist á næsta ári, 2020, og að framkvæmdum sé lokið árið 2024 og að gjaldtakan hefjist þá.

Ekki hefur enn verið ákveðið hvernig staðið verður að gjaldtöku né hversu há gjöldin verða. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í áhugaverðri úttekt fréttastofu RÚV á öllu sem tengist veggjöldum.