Nýjast á Local Suðurnes

Aldrei fleiri í leikskólum Reykjanesbæjar – Þrír nýir á teikniborðinu

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs mættu á fræðsluráðs Reykjanesbæjar á dögunum og fóru yfir fjölda leikskólabarna í Reykjanesbæ og horfur varðandi leikskólapláss á komandi misserum.

Í máli þeirra kom fram að 1014 börn séu í leikskólum Reykjanesbæjar og hafa aldrei verið fleiri. Skólaárið 2022-2023 er áætlað að börn í leikskólum Reykjanesbæjar verði að óbreyttu 1050.

Þá kom fram að gert sé ráð fyrir að öll börn sem fædd eru árið 2020 muni fá leikskólapláss í lok sumars 2022. Nú þegar hafa 69 börn fædd árið 2020 hafið leikskólagöngu sína. Stefnt er að því að nýr leikskóli rísi í Dalshverfi III á vormánuðum 2023. Þá er stefnt að því að byggingu leikskóla í Hlíðahverfi verði lokið fyrir haustið 2023 og þriðja áfanga Stapaskóla verði lokið fyrir haustið 2024.

Fræðsluráð fagnar þeim uppbyggingaráformum leikskóla sem kynnt voru á fundinum. Ljóst er að með þeim áætlunum sem voru kynntar mun Reykjanesbær geta mætt þeirri þörf fyrir leikskólapláss sem er til staðar í samfélaginu sem og tekið inn yngri börn. Fræðsluráð leggur áherslu á að uppbyggingaráætlun til framtíðar verði skilgreind nánar og fylgt eftir.