Nýjast á Local Suðurnes

Milljarður í ræsin á næstu þremur árum

Reykjanesbær áætlar að leggja um 1.250 milljónir króna í byggingu nýrrar skolphreinsistöðvar og endurnýjun á hluta af lagnakerfi sveitarfélagsins. Þá hefur fráveitukerfi Ásbrúar verið bætt inn í kerfi Reykjanesbæjar sem kallar á aukinn kostnað.

Í framkvæmdaáætlun Fráveitu Reykjanesbæjar fyrir árið 2020 er gert ráð nauðsynlegum framkvæmdum að fjárhæð um 150 milljónir króna og mun sú fjárhæð að mestu fara í viðhald á lögnum en í ljós kom við ástandsskoðun að lagfæra og endurnýja þarf töluvert af lögnum.  Á árunum 2021 og 2022 er gert ráð fyrir aukningu í fjárfestingum Fráveitunnar einkum vegna nýrrar skolphreinsistöðvar í Keflavík. Á þessum árum er gert ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 1,1 milljarð króna.

Þá er Ásbrú komin inn sem hluti af fráveitukerfi bæjarins og er það töluverð aukning á lögnum. Lagt hefur verið í sjóð til að mæta brýnni þörf fyrir fjárfestingar á næstu árum, segir í fylgigögnum með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2020-2023.