FA ósátt við Express-þjónustu Fríhafnarinnar

Félag atvinnurekenda hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi og óskað eftir að ráðuneytið upplýsi um afstöðu sína til pöntunarþjónustu Fríhafnarinnar í Leifsstöð, svokallaðrar Express-þjónustu á netinu, þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Íbréfinu sem finna má neðst í fréttinni, segir að markaðsherferðir Fríhafnarinnar, þar sem vakin er athygli á þessari þjónustu, séu þáttur í afar óeðlilegri samkeppni ríkisins við verslunarfyrirtæki í landinu. Rekstur Fríhafnarinnar fari sífellt lengra út fyrir það sem teljast megi eðlileg skilgreining á „fríhafnarverslun fyrir ferðamenn“.
Rekstur komuverslunar, þar sem vörur eru seldar til nota innanlands án opinberra gjalda, sífellt meira vöruúrval og nú síðast pöntunarþjónusta á netinu séu dæmi um slíkt.
Tekið er undir ábendingar í Skoðun Viðskiptaráðs í nóvember síðastliðnum, um að „Express-þjónustan“ þýðir í raun að ekki sé nauðsynlegt að fara af landi brott til að kaupa vörur án opinberra gjalda; flestir eigi auðvelt með að finna einhvern til að sækja vörurnar á leið um flugstöðina.
Bréf FA til fjármálaráðherra má finna hér.