Leoncie setur áritað hús sitt í Reykjanesbæ á sölu

Indverska prinsessan Leoncie virðist ætla að standa við stóru orðin og flytja af landi brott, eða allavega færa sig um set, því hún hefur sett húseign sína í Reykjanesbæ á sölu. Leoncie tekur fram að húsnæðið sé sérstaklega áritað af eigandanum, en segir þó ekkert um hvernig eða hvar sú áritun er.
Það er fasteignasalan Allt fasteignir í Reykjanesbæ sem sér um söluna fyrir söngkonuna dáðu, en þar ætti að vera mögulegt að fá nánari upplýsingar um eignina.
Eintak af hljómplötu söngkonunnar, My Icelandic Man, seldist á hálfa milljón króna á dögunum og í kjölfarið auglýsti Leoncie áritað eintak af sömu plötu á sölu fyrir eina milljón króna – Um er að ræða síðasta eintakið af plötunni, sem er í eigu söngkonunnar.