Reyndi að leigja út húsnæði í eigu annara í Reykjanesbæ – Tók við fyrirframgreiðslum
Bergljót Snorradóttir greiddi margdæmdum svikara, Halldóri Viðari Sanne, 300.000 krónur í fyrirframgreiðslu, vegna leigusamnings á húsnæði í Reykjanesbæ, sem ekki er í hans eigu. Þá mun maðurinn hafa reynt að fá viðskiptabanka konunnar til að millifæra á sig tæplega milljón króna, sem tryggingu fyrir leigugreiðslum.
Það er Vísir.is sem greinir frá þessu, en í samtali við miðilinn segir Bergljót að Halldór sé mjög fær í því sem hann gerir.
„Þetta byrjar á því að hann auglýsir einbýlishús í Njarðvík til leigu á bland.is í síðasta mánuði. Sonur minn hafði hug á að leigja þetta hús ásamt tveimur öðrum. Við förum fjögur að skoða húsið og honum líst á hópinn og við á húsið.“ segir Bergljót. „Hann tjáði okkur að mikil eftirspurn væri að húsinu og því þyrfti hann að fá fyrirfram greiðslu svo tryggt væri að hópurinn tæki íbúðina á leigu,“ segir Bergljót.
„Einnig hringdi hann í þjónustufullttrúann minn í mínum viðskiptabanka til að telja henni trú um að millifæra um 900 þúsund krónur af reikningi mínum í fyrirframgreidda leigu. Það símtal er til á hljóðupptöku,“ segir Bergljót. „Hinsvegar náði hann af mér 300 þúsund krónum. Ástæða þess að ég segi þessa sögu er til að aðrir hugsi sig um áður en farið er í viðskipti við þennan siðblinda mann.“
Húsnæðið í Njarðvík var ekki og er ekki í eigu Halldórs. Hann var með húsið sjálfur á leigu og mátti ekki leigja það áfram samkvæmt leigusamningi sem hann gerði við eiganda fasteignarinnar.
Í umfjöllun Vísis segir Halldór málið byggt á misskilningi.