Nýjast á Local Suðurnes

Uppsagnir hjá United Silicon vegna öryggismála – “Ekkert hefur breyst og ekkert verið lagað”

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Vefmiðillinn Stundin segir United Silicon hafa stundað það að undanförnu að losa hættuleg eiturefni í skjóli nætur út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar og út í andrúmsloftið. Þessu til staðfestingar birtir vefmiðillinn myndskeið sem sýnir að því er virðist umrædda losun.

Í umfjöllun Stundarinnar kemur einnig fram að um sé að ræða ryk sem verður til við bruna á timbri en timbrið er notað til þess að hita upp fyrsta ofninn af fjórum sem United Silicon hyggst gangsetja á næstu árum.

Umrætt myndskeið má sjá hér, en miðillinn greinir einnig frá því að fleiri slík verði birt á næstu dögum.

Segja upp störfum af öryggisástæðum

Þá hefur blaðamaður Stundarinnar, eftir ónafngreindum starfsmanni að menn hafi sagt upp störfum í verksmiðjunni vegna öryggsmála, en sá setur meðal annars út á sjúkraherbergi starfsmanna.

“Það [sjúkraherbergi starfsmanna] er að mestu óklárað, grútskítugt og engin áhöld, plástrar eða annað sem þyrfti að nota ef alvarlegt slys yrði á staðnum. „Það færi enginn þarna inn með opið sár til dæmis. Þetta er eins og herbergi á sjúkrahúsi á stríðssvæði sem hefur orðið fyrir sprengjuárás og er náttúrulega ekki nokkrum manni bjóðandi,“

„Menn eru að segja upp störfum einfaldlega af öryggisástæðum. Það situr í mér hversu máttlausar eftirlitsstofnanirnar eru. Ég trúi ekki öðru en að eftirlitsaðilar hafi tekið út sjúkraherbergið, starfsmannaaðstöðuna og sjálft vinnusvæðið en ekkert hefur breyst og ekkert hefur verið lagað. Hvar er heilbrigðiseftirlitið? Vinnueftirlitið? Slökkviliðið? Umhverfisstofnun?“ spyr starfsmaðurinn.