Nýjast á Local Suðurnes

Mun kosta 500 krónur á mínútu að stoppa of lengi

Isavia mun á næstunni breyta fyr­ir­komu­lagi við svo­kallaða „rennu“ við brott­far­ar­inn­gang flug­stöðvar­inn­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli. Verða nú bíl­stjór­ar rukkaðir fyr­ir hverja mín­útu sem þeir dvelja þar um­fram fimm mín­út­ur. Hver mín­úta eft­ir það mun kosta 500 krón­ur.

Um er að ræða ak­rein­ina sem er ætluð þeim sem þurfa að aka upp að flug­stöðinni og stöðva í stutta stund til þess meðal annars að hleypa út farþegum eða losa far­ang­ur.

Í til­kynn­ingu frá Isa­via segir að nokkuð hafi verið um að bíl­stjór­ar leggi bíl­um í renn­unni í lengri tíma, sem stífli flæði um­ferðar og geti heft aðgengi farþega og viðbragðsaðila.

Til að koma til móts við farþega verði gjald­frjálsi tím­inn á P2-skamm­tíma­bíla­stæðunum, komu­meg­in við flug­stöðina, lengd­ur úr 15 mín­út­um í 30.

Á milli 1.500 og 1.700 bíl­um er ekið í gegn­um renn­una á dag og er um­ferðin mest á álags­tíma á flug­vell­in­um. Lítið má því út af bregða til að þar verði taf­ir og biðraðir mynd­ist ef bíl­ar eru stöðvaðir of lengi eða er jafn­vel lagt í renn­unni,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá segir að at­hug­un á notk­un renn­unn­ar yfir rúm­lega mánaðar tíma­bil sýn­i að dval­ar­tími um 8% bíla er á bil­inu 16-20 mín­út­ur. Það hef­ur heft flæði í gegn­um hana og leitt til biðraða sem valda öðrum gest­um flug­vall­ar­ins óþæg­ind­um.

Gjald­taka verður sam­kvæmt gjald­skrá og tek­ur fyr­ir­komu­lagið gildi 4. mars.