Mun kosta 500 krónur á mínútu að stoppa of lengi

Isavia mun á næstunni breyta fyrirkomulagi við svokallaða „rennu“ við brottfararinngang flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Verða nú bílstjórar rukkaðir fyrir hverja mínútu sem þeir dvelja þar umfram fimm mínútur. Hver mínúta eftir það mun kosta 500 krónur.
Um er að ræða akreinina sem er ætluð þeim sem þurfa að aka upp að flugstöðinni og stöðva í stutta stund til þess meðal annars að hleypa út farþegum eða losa farangur.
Í tilkynningu frá Isavia segir að nokkuð hafi verið um að bílstjórar leggi bílum í rennunni í lengri tíma, sem stífli flæði umferðar og geti heft aðgengi farþega og viðbragðsaðila.
Til að koma til móts við farþega verði gjaldfrjálsi tíminn á P2-skammtímabílastæðunum, komumegin við flugstöðina, lengdur úr 15 mínútum í 30.
Á milli 1.500 og 1.700 bílum er ekið í gegnum rennuna á dag og er umferðin mest á álagstíma á flugvellinum. Lítið má því út af bregða til að þar verði tafir og biðraðir myndist ef bílar eru stöðvaðir of lengi eða er jafnvel lagt í rennunni,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að athugun á notkun rennunnar yfir rúmlega mánaðar tímabil sýni að dvalartími um 8% bíla er á bilinu 16-20 mínútur. Það hefur heft flæði í gegnum hana og leitt til biðraða sem valda öðrum gestum flugvallarins óþægindum.
Gjaldtaka verður samkvæmt gjaldskrá og tekur fyrirkomulagið gildi 4. mars.