Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Spilling, klíkur, misbeiting valds og auður í hverju skúmaskoti

Í svifaseinni blankri borg þar sem svifrykið fyllir öndunarvegi og dekkjakurl þekur fótboltavelli þurfa blessuð börnin að taka til hendinni líkt og þekkist í fjarlægum löndum. Þar er þetta kallað barnaþrælkun, en yndislegum vinkonum í Árbænum ofbauð sóðaskapurinn í hverfinu sínu. Ásýnd borgarinnar er í raun komin á ábyrgð borgarbúa þar sem meirihlutinn virðist lamaður í blankheitunum.

Árni Árna

Árni Árna

Auglýsing á bland.is vakti mikla athygli nýverið. Þar er íbúð í Grindavík auglýst til leigu. Ekkert athugavert við það nema hvað að ein myndin af íbúðinni vakti umtalsverða athygli. Það var mynd af baðherberginu, en á klósettkassanum stóð þessi fjallmyndarlegi gervilimur, bikasvartur og í þeirri stærð að flestir alvöru karlmenn fylltust minnimáttarkennd. Þarfirnar eru misjafnar og ekkert að því að eiga skemmtilegt fullorðisdót, spurning hvort viðkomandi hafi hækkað leiguna og gripurinn fylgi með.

Ef við höldum okkur við fasteignir þá birtist auglýsing frá fasteignasölu þar sem íbúð var auglýst til sölu. Það voru nokkrar íbúðir í húsinu og það var tekið sérstaklega fram að húsið væri barnlaust. Ég veit að fólk forðast myglusveppi og silfurskottur en ég vissi ekki að börn væru á listanum. Þetta er einkennileg auglýsing og hálf niðrandi fyrir börn. Ætli það sé til fólk sem segir „ég fann draumaíbúðina en hætti við, það voru börn í húsinu?“ Á ekki svoleiðis fólk að vera bara vitaverðir í óbyggðum.

Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins er eins og svarti sauðurinn í flokkum eftir að hafa stutt þingrof. Það er öllum stjórnmálaflokkum hollt að misjafnar skoðanir ríkti á hlutunum og að fólk sé óhrætt til að fylgja sinni sannfæringu. Unnur er nagli, það er á hreinu og er óhrædd þótt á móti blási. Ég er stoltur af henni að þora og það ber að virða við þingmanninn – hún á skilið að leiða lista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í haust.

Ásdís Rán er í Séð & heyrt og þráir ekkert heitar en að fljúga hjá Landhelgisgæslunni. Gæslan þarf að bjóða henni í heimsókn og sýna henni að þyrluflugmennirnir eru fullklæddir í vinnunni þá hættir hún við þessi elska, nema kannski að hún sé komin á þann aldur að hún hugleiði að klæða sig.

Stundum skil ég ekki þessa þjóð – Andri Snær rithöfundur tilkynnti í vikunni forsetaframboð sitt og bættist stóran hóp íslendinga sem allir vilja búa á Bessastöðum. Hvað um það, Andri tilkynnti framboð sitt á fundi í Þjóðleikhúsinu. Netverjar náðu að gera það tortryggilegt. Þjóðleikhúsið væri að taka afstöðu til frambjóðanda. Það er orðið þannig að netverjar sjá spillingu, klíku, misbeitingu valds og auðs í hverju skúmaskoti. Þetta er alveg óþolandi þessi óhamingja og öfund sem ríkir í samfélaginu. Enn og aftur hvet ég OR að dæla smá af gleðipillum í vatnskerfið og athuga hvort þessi þjóð taki ekki gleði sína að nýju.

Talandi um þjóðina, óskabörn hennar hafa snúið heim eftir stutta dvöl á heilsuhælinu Kvíjabryggju. Endurnærðir og líta bara vel út, enda nýleg rúm og allur aðbúnaður til fyrirmyndar í sveitinni góðu. Það er ánægjulegt að boðið sé upp á svona stutta og þægilega afplánun fyrir eðalfanga.

Reykjavík er orðin eins og vilta vestrið – gullæðið um gistirými er farið úr böndunum og friðuð hús rifin án leyfis í kapphlaupinu. Það er með ólíkindum að borgaryfirvöld skuli ekkihafa skýrari stefnu og vinnubrögð í þessum látum. Það er óværa að ganga um borginu fyrir framkvæmdum og hávaðamengunin slík að búðareigendur og starfsfólk er orðið hálf bugað. Niðurrif, niðurbort á klöppum í jarðvegi, allt kallar þetta á hávaða og ónæði. Ég rakst á góðan vin sem sagði ekki búandi lengur í miðborginni og leitar sér að húsnæði í Hafnarfirði í von um smá kyrrð og minna áreiti.

Viðskiptaráð Íslands hefur birt vef þar sem hægt er að setja inn upplýsingar um stærð fjölskyldunnar, hvað eru mörg börn á leikskóla, áætla stærð heimilisins og setja inn tekjur. Vefurinn reiknar út frá sköttum og gjöldum sveitarfélaga á Íslandi hvar er hagstæðast að búa. Samkvæmt skoðun netmiðilsins sudurnes.net er Garður, minn gamli heimabær langhagstæðastur af sveiterfélögunum á Suðurnesjum. Það kom ekki á óvart þar sem sveitarfélagið Garður er einstaklega vel rekið. En jæja ég setti inn í þessa formúlu launin mín og áætlaði að fyrir gamla piparkallinn ættu 75 fm. íbúð að duga. Þá kemur í ljós að hagstæðast er fyrir gamla piparkalla eins og mig að búa í Ásahreppi takk fyrir – Reykjavík er í 31. sæti yfir hagstæðustu sveitarfélögin fyrir einstæðinga. Nú eru góð ráð dýr, annaðhvort verð ég að byrja að pakka niður, rífa fram þjóðhátíðargúmmítútturnar og flytja í sveitina eða já ná mér í tannlækni ef ég ætla að halda áfram að glenna mig á götum borgarinnar.

Baráttan um Bessastaði heldur áfram samt innan gæsalappa. Það bætast við frambjóðendur og líka byrjað að týnast úr þeim. Þorgrímur Þráinsson áttaði sig á því í amstri Ólafs Ragnars á dögunum að embættið væri ekki réttur vettvangur fyrir lýðheilsu-herferð sína. En Annars verður bara vart við yfirlýsingar um framboð og svo ekkert meir. Það er engin að vekja athygli á sér með neinum hætti. En þegar skoðuð eru stefnumál frambjóðenda þá er eins og sumir hverjir hafi ekki kynnt sér embættið. Betra heilbrigðiskerfi – breytir því ekki nema að gefa kost á þér til Alþingis. Sama má segja um bætt lífskjör í landinu, bæta kjör eldri borgara og öryrkja, stofnun hálendisþjóðgarðs. Þetta hefur bara ekkert að gera með forsetann. Forsetinn getur verið verndari eða málsvari í átaki eða söfnunum og getur lagt lið í baráttu af ýmsu tagi, en ákvörðun í þessum málaflokkum liggur ekkert hjá embættinu. Það er spurning að Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræðum bjóði frambjóðendum á fræðilega kynningu á embættinu – ég er viss um að þá hættir alveg örugglega nokkrir í viðbót við framboð.

Það eru blendnar tilfinningar yfir nýjustu tíðindunum í tónlistarheimi okkar íslendinga. Leonce, sjálf indverska drottningin mun brátt yfirgefa klakann. Hún greindi frá þessu enda bíða hennar ótrúleg tækifæri í tónlist sem og leiklist úti í hinum stóra heimi. Stundum er Ísland bara of lítið fyrir stórstjórnur.Ekki liggur fyrir hvaða land hreppir hnossið en þetta verður stórt skarð í tónlistinni hérna heima sem erfitt ef ekki ómögulegt að fylla.

Talandi um stórstjórnur, Björk Guðmundsdóttir hefur látið sjá sig, eða svona hluta af sér allavega hérna á klakanum annaðslagið. Ég skil að vísu ekki þetta grímu-þema en svona eru listamenn. Hún hefur verið hávær um spillingu í íslensku samfélagi og skotið á ríkisstjórnina í þeim efnum. En svo hefur komið á daginn að þessi ágæta kona er með féð sitt í skattaskjólum – er hún þá ekki skattsvikari? Er það ekki spilling? Kannski er hún bara eins og aðrir í þessu máli, það kannast bara engin við að eiga í þessum aflandsfélögum. Spurning hvort það þurfi ekki að skoða þetta mál frekar. 600 íslendingar tengdir þessu án þeirra vitundar, kannski maður eigi bara óvænt einhverjar millur þarna úti einhversstaðar – ég bíð hreinlega spenntur að sjá allan listann það væri vel þegið að fá óvæntan glaðning.

Góða helgi