Nýjast á Local Suðurnes

Yfirfull bílastæði við FLE – Mæla með að fólk taki strætó á völlinn

Langtímabílastæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru orðin full og bendir rekstraraðili vallarins, Isavia, farþegum sem eru á leið til útlanda á að taka rútu eða Strætó eða láta aka sér á flugvöllinn. Starfsmenn Isavia hafa undanfarna daga unnið að því að flytja bíla af bílastæðunum á önnur svæði og hefur meðal annars verið tekinn undir það hluti af rútustæðum við flugvöllinn. Nú hafa yfir 600 bílar verið fluttir og ekki er meira pláss á þeim svæðum sem gert var ráð fyrir að notast við ef þessi staða kæmi upp.
Í tilkynningu frá Isavia segir að um sé að ræða mun meiri nýtingu en gert hafi verið ráð fyrir nú yfir páskana. Árið 2016 voru rétt rúmlega 2000 bílar í langtímastæðum yfir páskana en núna eru þeir 3000 talsins og aukningin er því gríðarleg. Bílastæðin voru stækkuð síðast í fyrrasumar og 350 stæðum bætt við. Bílastæðin eru því nú 2.350 talsins og alla jafna er um 43% nýting á þeim. Nú yfir páskana eru Íslendingar mun meira á faraldsfæti en gert var ráð fyrir í áætlunum og því hefur þessi staða komið upp. Ljóst að hefja þarf vinnu við að stækka bílastæðin enn frekar svo þau ráði við mesta álagstíma ársins, sem jafnan eru páskarnir. Isavia vill biðjast afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda flugfarþegum.