Nýjast á Local Suðurnes

Samið um hjúkrunarheimili fyrir íbúa í Reykjanesbæ

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirrituðu í dag samning um nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að heimilið verði tekið í notkun um mitt ár 2023. Ákvörðun um að ráðast í þessa uppbyggingu er í samræmi við niðurstöður frumathugunar Framkvæmdasýslu ríkisins á liðnu ári.

Nýbyggingin mun rísa við hlið núverandi hjúkrunarheimilis á Nesvöllum og verður samtengd því í samræmi við áherslur Reykjanesbæjar. Með tilkomu heimilisins fjölgar hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu um 30 en 30 rýmanna koma í stað þeirra rýma sem nú eru á Hlévangi. Hlévangi verður lokað enda aðstæður þar ekki lengur í samræmi við nútímakröfur til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum.

Reykjanesbær annast fjármögnun framkvæmdakostnaðar en heilbrigðisráðuneytið greiðir sveitarfélaginu 85% kostnaðarins á árunum 2020–2023 í samræmi við framvindu verksins en sveitarfélagið greiðir 15% af framkvæmdakostnaði.