Nýjast á Local Suðurnes

Kynna rússneska tónlistarmenningu

Tónleikar tileinkaðir rússneska ljóðskáldinu Alexander Pushkin fara fram í Hörpu laugardaginn 29. febrúar. Tónleikarnir eru hluti af tónlistarmenningarbrú milli Íslands og Rússlands, Russian Souvenir, sem stofnuð var árið 2016 af óperusöngkonunni Alexöndru Chernyshovu sem búsett er á Suðurnesjum.

Alexöndru er umhugað um að kynna tónlistarmenningu hvorrar þjóðar fyrir hinni. Hún hefur staðið fyrir á þriðja tug viðburða í tengslum við Russian Souvenir, á Íslandi og í Rússlandi.

Í viðburðum Russian Souvenir á Íslandi er rússnesk tónlist í forgrunni en íslensk tónlist þegar viðburðir fara fram í Rússlandi. Í sumar sem leið stóð Alexandra fyrir tónleikum í Pétursborg, Russian Souvenir: introducing Iceland, og komu fram bæði íslenskir og rússneskir listamenn.

Á dagskránni á tónleikunum í Hörpu verða frumfluttar sjö rómönsur eftir rússneska tónskáldið Antoninu Rostovskuju við ljóð A. Pushkin sem var skrifað sérstaklega fyrir sópransöngkonuna Alexöndru Chernyshovu. Á tónleikunum munu einnig hljóma mjög þekktar aríur eins og Varjazskiy gost úr óperunni Rúsland og Ljudmila, aría Melnik úr óperunni Rusalka, þekktir rómansar eins og Ekki syng þú mér ey eftir Sergei Rachmaninov og Gosbrunnur í Bahchisaray kastala eftir Aleksey Vlasov og aðrar rússneskar perlur.

Í hléi verður í boði rússneskt te og meðlæti.

Á tónleikum Russian Souvenir fá áhorfendur að heyra úrval meistaraverka klassískrar tónlistar sem hefur heillað heiminn og líka úrval samtímatónlistar sem er ekki eins vel þekkt. Þessir tónleikar eru einstakt tækifæri til að njóta tónverka sem sjaldan eru flutt utan Rússlands.