Hver verður Grindvíkingur ársins?
Grindvíkingar standa fyrir vali á Grindvíkingi ársins 2015 á heimasíðu sveitarfélagsins. Grindvíkingar eru hvattir til þess að senda tilnefningar á heimasidan@grindavik.is. Óskað er eftir tilnefningum og er skilyrði að senda einnig rökstuðning fyrir því af hverju viðkomandi ætti að vera valinn Grindvíkingur ársins.
Valið er fyrst og fremst gert til þess að vekja athygli á því sem vel er gert í Grindavík, segir á heimasíðu sveitarfélagsins. Valið verður kunngjört á heimasíðunni strax eftir áramót en hægt er að senda tilnefningar til 30. desember. Fimm manna dómnefnd mun fara yfir tilnefningarnar og velja Grindvíking ársins með tilliti til þeirra. Verðlaunin verða svo afhent á þrettándagleðinni.
Grindvíkingur ársins hefur verið valinn með þessum hætti síðan 2009:
2009 Davíð Arthur Friðriksson og Sigurður Halldórsson.
2010 Ásta Birna Ólafsdóttir.
2011 Matthías Grindvík Guðmundsson.
2012 Útsvarslið Grindavíkur; Agnar Steinarsson, Daníel Pálmason og Margrét Pálsdóttir.
2013 Otti Sigmarsson.
2014 Alexander Birgir Björnsson og fjölskylda.