Nýjast á Local Suðurnes

Kór Keflavíkurkirkju og Söngfjelagið bjóða á tónleika

Kór Keflavíkurkirkju og Söngfjelagið halda saman tónleika í Keflavíkurkirkju laugardaginn 21. maí næstkomandi klukkan 16.

Söngfjelagið er blandaður kór sem var stofnaður haustið 2011 og er löngu orðinn kunnur í tónlistarlífi höfuðborgarinnar. Fastir liðir á verkefnaskrá Söngfjelagsins eru árlegir aðventutónleikar, þar sem ávallt er frumflutt nýtt verk samið sérstaklega fyrir kórinn, og sumarfagnaður í Iðnó á síðasta vetrardag. Þess á milli flytur Söngfjelagið jazz, klezmer, þjóðlög og hvaðeina sem andinn blæs kórnum í brjóst. Einu er þó ávallt hægt að ganga að sem vísu; sönggleðin er í fyrirrúmi. Kórinn telur um 60 manns, þar sem valinn maður er í hverju rúmi, allt kórvant og/eða tónlistarmenntað fólk. Söngfjelagið varð til vegna áhuga hópsins á að flytja vandaða kórtónlist undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, en hann er meðal reyndustu og fremstu kórstjóra landsins og hefur m.a. hlotið athygli og viðurkenningu á alþjóðavettvangi með Kammerkór Suðurlands.

Kór Keflavíkurkirkju þarf nú varla að kynna en hann er athafnakór og miklu meira en venjulegur kirkjukór. Stjórnandinn er að sjálfsögðu Arnór B. Vilbergsson organisti. Fyrir utan hefðbundið safnaðarstarf s.s. söng í messum og útförum hefur kórinn sett upp metnaðarfull verkefni á hverju ári bæði í popp, rokk og klassík.

Í kórnum starfa að jafnaði um 40 virkir félagar en alls eru félagar um 60. Innan kórsins starfa svo minni sönghópar auk þess sem margir eru liðtækir tónlistarmenn eða spila í hljómsveitum.

Kórarnir syngja bæði saman og í sitthvoru lagi. Lögin eru úrval uppáhaldslaga kóranna af innlendum og erlendum uppruna. Tekið er mið af komandi sumri og bjartari tímum framundan og lögin því frekar í léttari kantinum.

Frítt er inn og allir hjartanlega velkomnir.