Nýjast á Local Suðurnes

Fjárveitingar staðið í stað og óhentugur tækjakostur til snjómoksturs

Töluverð umræða hefur verið á samfélagmiðlum undanfarið um snjómokstur í Reykjanesbæ og ljóst að sitt sýnist hverjum um hvernig til hefur tekist þetta árið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu á dögunum eftir svörum frá umhverfis- og skipulagssviði varðandi snjómokstur í sveitarfélaginu á dögunum og í svari sviðsstjóra við fyrirspurninni kemur meðal annars fram að fjármagn til málaflokksins hefur staðið í stað frá árinu 2019 auk þess sem verktakar á svæðinu geri ekki lengur út á snjómokstur og tækjaflóra þeirra henti því illa til slíkra verka. Þá kom fram að tækjakostur sveitarfélagsins sé bágborinn til slíkra verka og þarfnist endurnýjunar.

Umhverfismiðstöð Reykjanesbæjar hefur yfirumsjón með snjómokstri og hálkuvörnum á götum, gangstéttum og göngustígum bæjarins samkvæmt ákveðinni forgangsröðun, segir á heimasíðu Reykjanesbæjar, en þar er ferlinu lýst, eins og sjá má hér fyrir neðan:

Þær götur sem eru í forgangi eru strætóleiðir, stofnbrautir og helstu tengibrautir sem liggja í átt að neyðarþjónustu s.s. sjúkrahúsi, lögreglu og slökkvistöð auk gatna sem liggja í átt að skólum og leikskólum. 

Þær götur sem liggja í brekku eru einnig í forgangi hvað varðar hálkueyðingu. Leitast er við að moka bílastæði við grunn- og leikskóla þótt það sé ekki í forgangi en oftast eru bílastæðin hreinsuð daginn eftir. Húsagötur eru ekki mokaðar nema að þær séu orðnar þungfærar. Ekki er mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar að sjá um það sjálfir. Við hálkueyðingu gatna er eingöngu notast við salt og þá í eins litlu magni og mögulegt er.

Miðað er við að moka fyrst þær leiðir sem liggja að grunnskólum og leikskólum. Síðan eru gönguleiðir meðfram helstu stofn- og tengibrautum og göngustígar á opnum svæðum hreinsaðir. Við hálkuvarnir á gönguleiðum er notast við salt og sand sem blandað er saman.

Húsagötur og fáfarnari götur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru orðnar þungfærar venjulegum einkabílum sem eru útbúnir til vetraraksturs. Ekki verður mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar því að sjá um það sjálfir.

Hér má sjá svar sviðsstjóra umhverfissviðs í heild sinni