Tók framúr lögreglu á ofsahraða

Lögreglan á Suðurnesjum svipti erlendan ökumann ökuréttindum til bráðabirgða eftir að hann hafði ekið á ofsahraða eftir Reykjanesbraut.
Lögreglumenn voru við umferðareftirlit þegar bifreið var ekið með ofsahraða á eftir lögreglubifreiðinni. Þegar saman dró töldu lögreglumenn að ökumaður bifreiðarinnar myndu aka aftan á lögreglubifreiðina og skiptu því um akrein. Var bifreiðinni þá ekið fram úr lögreglubifreiðinni og mældist hún á 150 km hraða.
Auk ökumanns voru fullorðinn farþegi svo og 10 ára barn í bifreiðinni. Ökuskírteini ferðalangsins er í geymslu á lögreglustöð þar til að hann fer úr landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.