Nýjast á Local Suðurnes

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hækkar – Þeim fjölgar sem fá framfærslustyrk hjá Reykjanesbæ

Reykjanesbær mun hækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, en hækkunin miðast við framreikning á vísitölu neysluverðs í desember ár hvert. Mun fleiri þáðu fjárhagsaðstoð í desember 2019 heldur en í sama mánuði árið 2018.

Ákvörðun um hækkun er tekin samkvæmt reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð og er ákvarðanatakan í höndum Velferðarráðs sem samþykkti hækkunina á síðasta fundi sínum. Lagt var til, í samræmi við framreikning, að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar færi úr 149.678 krónum í 152.717,- krónur pr. mánuð árið 2020.

Þá kom fram á fundinum að töluverð fjölgun væri í þeim hópi fólks sem fær fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu, en í desember á síðasta ári fengu 118 einstaklingar greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 17.134.428,- í málaflokkinn. Í sama mánuði árið 2018 fengu 86 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.

Sömu sögu er að segja af fjölda þeirra sem fengu greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Alls fengu 197 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins í desember síðastliðnum. Í sama mánuði árinu áður fengu 149 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins.