Nýjast á Local Suðurnes

Skorar á bæjarstjóra að gera hreint fyrir sínum dyrum

Grétar Ólason vill að bærinn sé snyrtilegur

Töluvert hefur verið um að bæjarbúar í Reykjanesbæ hafi gengið skrefinu lengra en þarf þegar kemur að því að snyrta til í kringum húsnæði og garða sína, nokkrir hafa birt myndir af tiltektum í Facebook-hópnum “Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri.”

betri bær

Grétar Ólason gerði snyrtilegt fyrir utan lóðamörk og vill að aðrir geri slíkt hið sama

Einn af þeim sem hefur tekið þátt í þessu átaki er Grétar Ólason en hann er sennilega best þekktur fyrir miklar skreytingar á húsi sínu og garði í kringum jólahátíðina. Hann hefur skorað á nágranna sína til að gera slíkt hið sama en á meðal þeirra er bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson.

Grétar vill að menn deili þessum boðskap sem víðast og segir meðal annars á Facebook síðu “Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri:”

“Ég ætla að skora á nágrana mína til að gera það sama, fyrst skora ég á Bæjarstjórann okkar hann Kjartan Már síðan Magnús Þorsteinsson og síðan er það Jón Kr, ef við gerum þetta þá verður allt mjög hreint og fallegt í kringum okkur. Endilega deilið þessu og förum á fullt með þetta átak. Koma svo.”

Það má því segja að Grétar skori á bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem og aðra Suðurnesjamenn til að gera hreint fyrir sínum dyrum.