Nýjast á Local Suðurnes

Tæplega 90% íbúa Suðurnesja skráðir á Heilsugæslustöðvar á svæðinu

Tæplega 90% íbúa eru skráðir á heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum, en stefnt er að því að auka skráningar með því að efla þjónustu stofnunarinnar.

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) óskaði eftir upplýsingum frá stofnuninni um fjölda íbúa á Suðurnesjum sem skráðir eru á heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum sem og hvernig hægt væri að fjölga skráningum á heilsugæslustöðvum á Suðurnesjum.

Málið var rætt á síðasta fundi stjórnarinnar eftir að svör bárust frá forstjóra og sérfræðingi í upplýsingadeild HSS. Þar kom fram að á svæði heilsugæslustöðvarinnar í Reykjanesbæ, sem þjónustar íbúa Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar, eru 23.020 íbúar og 20.157 skráðir á stöðina, sem jafngildir 88%. Í Grindavík eru 3.520 íbúar og 3.108 skráðir eða 88% og í Sveitarfélaginu Vogum eru 1.310 íbúar og 773 skráðir á selið þar eða 59%.

Alls eru því 24.038 af 27.850 íbúum Suðurnesja skráðir á heilsugæslustöðvar/-sel HSS eða 86%. Fram kemur í tölvupósti frá forstjóra HSS að sett hefur verið stefna á að efla þjónustuna og telur HSS að það sé eina rétta leiðin til að fá fólk til að skrá sig á HSS.