Nýjast á Local Suðurnes

Tvöföldun Reykjanesbrautar í tölum – Mikið malbik og hundruðir ljósastaura

Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 km kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns munu hefjast í vor, gangi áætlanir Vegagerðarinnar eftir. Áætlaður verktími er um þrjú ár, samkvæmt útboðsgögnum.

Verkið er mikið að umfangi, en hér fyrir neðan má sjá nokkrar tölulegar upplýsingar um það sem þarf að framkvæma samkvæmt útboðsgögnum.

Töluvert þarf að brjóta og færa til af jarðvegi við framkvæmdina. Fyllingar eru samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar 131.100 m3, bergskeringar og fláafleygun eru samkvæmt sömu áætlun um 230.000 m3. Þá eru áætlaðir um 90.000 m3 í styrktar- og burðarlag.

Alls verða malbikaðir 242.300 m2 á þessum 5,6 kílómetra kafla, lagðir verða 1200 metrar af kantstein og byggja þarf rúma 11.000 metra af vegriðum. Þá þarf að leggja tæpa 5 kílómetra af fjarskiptalögum í jörðu auk um fjögurra kílómetra af öðrum lögnum, fyrir utan strengi vegna lýsingar, en leggja þarf um átján kílómetra af strengjum vegna þess. Verkið er unnið í samstarfi við HS Veitur, Mílu, Orkufjarskipti, Ljósleiðarann, Carbfix og Veitur. 

Kaflinn ætti að vera nokkuð vel upplýsur og merktur, en alls verða settir upp 422 ljósastaurar og málaðir verða um 35 kílómetrar af yfirborðsmerkingum.