Nýjast á Local Suðurnes

Góð þátttaka í Skessumílunni sem verður árlegur viðburður

Heilsueflingarverkefnið Skessumílan sem Reykjanesbær og Skessan í hellinum stóðu fyrir fór fram í fyrsta skipti síðastliðinn fimmtudag. Sólskin og bjart var þennan dag og þrátt fyrir norðan rok var ágætis þátttaka. Viðburðurinn var hugsaður sem heilsueflingarhvatning fyrir alla fjölskylduna, þar sem gengið var eða skokkað frá hafnarvoginni við Keflavíkurhöfn og út í smábátahöfnina eftir göngustígnum við sjávarsíðuna. Um var að ræða 1,6 km langa gönguferð þar sem allir geta tekið þátt og notið útivistar í okkar fallega sveitarfélagi.

Bæjarstjóri Reykljanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, ræsti keppendur og gekk með þeim í endamarkið. Stefnt var að því að Skessan tæki líka þátt, en hún afboðaði því miður á síðustu stundu. Allir þátttakendur fengu þátttökunúmer, úr þessum númerum voru síðan dregnir út nokkrir heilsueflingarglaðningar. Að lokinni göngunni beið jógabílinn eftir hópnum og stjórnendur hans sáu um að teygja á þreyttum vöðvum eftir göngutúrinn. Jafnframt fengu allir þátttakendur lífræn epli og frítt í sund að loknum viðburðinum.

Framkvæmdin var í höndum 3N og Reykjanesbæjar og miðað við þátttökuna í ár er stefnt að því að gera þetta heilsueflingarverkefni að árlegum viðburði.