Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar enn ósigraðir í Dominos-deildinni

Grindavík eru enn ósigraðir í Dominos-deildinni í körfuknattleik eftir að hafa tekið ÍR-inga í bakaríið, á heimavelli þeirra síðarnefndu 94-79. Lokatölurnar segja ekki alla söguna því Grindvíkingar náðu mest 32ja stiga forystu í leiknum.

Grindvíkingar tóku öll völd á vellinum strax í upphafi leiks og voru komnir í 24-6 eftir 8 mínútur. Munurinn var svo  orðinn 26 stig í hálfleik, 57-31.

ÍR-ingar náðu aðeins að klóra í bakkann undir lok leiks, en eins og áður sagði komust Grindavíkingar mest 32 stigum yfir. Lokatölur urðu svo 94-79 og var Jóhann Árni Ólafsson stigahæstur Grindvíkinga með 20 stig.