Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík í undanúrslit – Barátta og vafaatriði í spennuleik

Erlend og innlend lið hafa áhuga á að fá Hauk Helga í sínar raðir

Njarðvíkingar munu mæta KR-ingum í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik eftir magnaðan sigur, 79-75, á Stjörnunni í miklum spennuleik í Garðabæ í kvöld. Leikurinn var augnakonfekt fyrir áhorfendur, mikil barátta, spenna og fjölmörg vafaatriði sem féllu fyrir bæði lið, einkenndu leikinn allan tímann.

Jafnt var á öllum tölum til að byrja með og liðin skiptust á að hafa forystuna en flottur leikur Jeremy Atkinson tryggði Njarðvíkingum eins stigs forystu eftir fyrsta leikhluta, 17-18. Haukur Helgi Pálsson tók við hlutverkinu af Atkinson í öðrum leikhluta og skoraði á gríðarlega mikilvægum augnablikum og Njarðvíkingar náðu á tímabili 11 stiga forskoti, sem Stjörnumenn náðu þó fljótt að saxa niður í eitt stig, staðan í leikhléi 36-37 Njarðvíkingum í vil.

Þriðji leikhlutinn spilaðist nánast eins og sá fyrsti, sterkur varnarleikur á báða bóga og liðin skiptust á að hafa lítið forskot. Stjörnumenn voru þó aðeins sterkari og höfðu náð eins stigs forskoti fyrir lokaleikhlutann, 55-54. Loka leikhlutinn var, eins og við var að búast, gríðarlega spennandi og allt á suðupunkti. Oddur Rúnar Kristjánsson, leikmaður Njarðvíkur, skoraði tvær þriggja stiga körfur á ótrúlega mikilvægum augnablikum og Njarðvíkingar náðu 10 stiga forskoti þegar um þrjár mínútur voru eftir. Stjörnumenn með Justin Shouse í fararbroddi náðu að minnka þann mun niður í þrjú stig á innan við mínútu, 75-72.

Stjörnumenn voru óhressir með dómgæsluna á lokamínútunum en tvö vafaatriði á afar mikilvægum augnablikum féllu Njarðvíkingum í vil eftir að dómarar leiksins höfðu skoðað myndbandsuptökur, en gríðarleg spenna var síðustu sekúndur leiksins. Haukur Helgi Pálsson tryggði þeim grænklæddu sigurinn og sæti í undanúrslitunum, af vítalínunni þegar um 4 sekúndur lifðu leiks þegar hann setti niður tvö vítaskot og kom Njarðvíkingum í 75-79, sem urðu lokatölur leiksins.

Jeremy Atkin­son skoraði 20 stig og tók ​10 frá­köst, Hauk­ur Helgi Páls­son skoraði 19 stig, tók ​10 frá­köst og átti 8 stoðsend­ing­ar, Odd­ur Rún­ar Kristjáns­son skoraði 13 og handarbrotinn Logi Gunn­ars­son skoraði 11 stig.