Reykjanesbær og Vogar gefa grænt ljós á leyfi til leitar að málmum á Reykjanesi
Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar gera ekki athugasemdir við erindi Orkustofnunar um að veita fyrirtækinu Iceland Resources ehf. leyfi til leitar og rannsókna á málmum á Reykjanesskaga.
Bæði sveitarfélögin setja þó skilyrði í umsagnir sínar, Reykjanesbær heimilar eingöngu vettvangsrannsóknir, sýnatöku og kortlagningu, án jarðrasks, þar sem hluti svæðisins er á vatnsverndarsvæði og Vogar áskilja sér allan rétt til að taka afstöðu til einstakra rannsókna, framkvæmda eða vinnslu með tilliti til áhrifa þeirra á viðkomandi svæði.
Iceland Resources ehf. hefur sótt um leyfi til rannsókna um land allt, alls um 4.500 ferkílómetra svæði. Fyrirtækið hefur þegar fengið jákvæðar umsagnir varðandi leyfi til rannsókna á austfjörðum og á suðurlandi og nú á Reykjanesskaganum.