Nýjast á Local Suðurnes

Upplýsingar um flug og þjónustu á Keflavíkurflugvelli sendar í gegnum samfélagsmiðla

Með nýrri þjónustu frá írska fyrirtækinu BizTweet er gervigreind nýtt til að koma upplýsingum um flug og þjónustu á Keflavíkurflugvelli til notenda með þeim hætti sem þeir kjósa. Hægt að fá upplýsingarnar sendar í gegnum Twitter eða Messenger forrit Facebook. Helstu flugvellir heims eru farnir að nýta sér þessa þjónustu, þar á meðal alþjóðaflugvellirnir í Melbourne í Ástralíu og Dúbaí sem og London City-flugvöllur.

Farþegar geta þannig fengið upplýsingar um flug sitt í rauntíma á þeim samskiptamiðli sem þeir velja. Hvert skref í þeirra ferðalagi er tíundað þar til lent er á áfangastað.

„Isavia vill veita farþegum greiðan aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa að fá þegar þeim hentar og með þeim hætti sem þeir vilja,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Til þess viljum við nýta nýjustu og bestu tækni. BizTweet hefur gert okkur þetta mögulegt.“

Paul Brugger, framkvæmdastjóri BizTweet segir það mikið ánægjuefni að veita Isavia þessa þjónustu. „Nýstárleg tækni BizTweet gefur flugvallarrekendum einstakt tækifæri til að veita skilaboð sem byggja á raungögnum. Þetta þýðir að viðskiptavinir Isavia, þ.e. farþegarnir, fá upplýsingar sem eiga beint erindi við þá.“

Vefir Isavia hefa verið mikið notaðir. Síðastliðið ár fóru um ein og hálf milljón netenda í 4,8 milljónir heimsókna á vef Keflavíkurflugvallar  sem þýðir að hver notandi fer rúmlega þrisvar sinnum á ári að meðaltali inn á vefinn. Fjórar milljónir flettinga voru á ensku síðunni á ársgrundvelli en sjö milljónir flettinga á íslensku síðunni.

Með aukinni þjónustu og greiðara aðgengi að upplýsingum um Keflavíkurflugvöll, alla aðra flugvelli landsins, komur og brottfarir og fjölbreytta þjónustu Isavia má ætla að umferð um nýjan vef fyrirtækisins verði jafnvel enn meiri.