Rúmlega tuttugu teknir fyrir hraðakstur – Erlendir ökumenn greiddu háar sektir
Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært rúmlega tuttugu ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 170 km hraða á móts við Stapann á Reykjanesbraut. Þegar hann framvísaði erlendu ökuskírteini kom í ljós að hann ók sviptur ökuréttindum.
Annar ökumaður, erlendur ferðamaður sem mældist á 143 km hraða, einnig á Reykjanesbraut, var grunaður um ölvun við akstur. Brot hans urðu honum dýrkeypt, eins og öðrum sem brjóta umferðarlög, því samtals þurfti hann að greiða rúmlega 216 þúsund krónur vegna hraðakstursins, ölvunaraksturs og kostnaðar vegna blóðrannsóknar o.fl.
Þá voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um ölvunar – eða fíkniefnaakstur og skráningarmerki tekin af átta bifreiðum sem ýmist voru óskoðaðar eða ótryggðar.