Samkaup er Menntasproti atvinnulífsins

Samkaup er Menntasproti atvinnulífsins árið 2020. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu, að því er segir í tilkynningu.
Í umsögn segir að mikil áskorun sé fólgin í rekstri 60 verslana með tæplega 1.300 starfsmönnum um land allt undir fjölmörgum vörumerkjum og þjónustuleiðum. Yfirstjórn Samkaupa tók ákvörðun um að sérstök áhersla á fræðslu- og menntamál væri einn lykilþátta góðs rekstrar. Sett eru fram skýr markmið þar sem áhersla er lögð á hæfni og færni starfsfólks á öllum sviðum rekstrarins. Leiðarljósið er starfsánægja, jákvætt viðhorf og gott orðspor jafnt fyrir nýtt starfsfólk og viðskiptavini félagsins.
Menntadagurinn er árlegur viðburður en að þessu sinni var fjallað um sköpun í ýmsum myndum. Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.